Ókyrrð á fjölförnum flugleiðum eykst Ríkisútvarpið Fyrst birt: 11.04.2013 18:02, Síðast uppfært: 11.04.2013 20:45 Breskir vísindamenn telja að ókyrrð í lofti yfir Norður-Atlantshafi aukist á næstu áratugum, rætist spár um loftslagsbreytingar. Þá verði meiri vindur á flugleiðum og þar af leiðandi meiri hristingur í flugvélum en nú er. Þetta kemur fram í rannsókn vísindamanna við háskólann í Reading og háskólann í Austur-Anglíu. Niðurstöðurnar voru birtar í grein í vísindaritinu Nature Climate Change. Rannsóknin er sú fyrsta sinnar tegundar. Fjölfarið flugsvæði yfir Norður-Atlantshafinu var kannað. Þar fara um 600 flugvélar daglega milli Evrópu og Ameríku. Í niðurstöðum vísindamannanna segir að hættan á að lenda í umtalsverði ókyrrð á flugi þar aukist um á bilinu 40-170 prósent fyrir miðja þessa öld verði spár um loftslagsbreytingar að veruleika. Líklegast sé að mikil ókyrrð verði í tvöfalt stærri hluta lofthelginnar yfir Norður-Atlantshafi á hverjum tíma. Þá verði vindkrafturinn meiri. Hann er talinn aukast um á bilinu 10-40 prósent. Vísindamennirnir benda á að þetta valdi ekki aðeins farþegum óþægindum heldur aukist kostnaður flugrekenda sem þurfi að leggja lykkju á leið flugvéla sinna til að sneiða hjá þeim svæðum þar sem ókyrrðin verður mest. Það þýði meira eldsneyti og aukin útgjöld til að komast hjá skemmdum á flugvélum og slysum á fólki.